• Skrifstofan er opin frá:

    Mán - fim: 7:45 - 15:30
    Fös: 7:45 - 14:00

  • Sími á skrifstofu

    420 1450

Viðbrögð við kynbundnu ofbeldi og öðru ofbeldi

Tilkynning - Kynbundið ofbeldi og annað ofbeldi

Nemendur, kennarar og starfsfólk skólans á hverjum tíma mynda skólasamfélag þar sem gagnkvæmt traust og virðing ríkir í samskiptum. Allir einstaklingar innan þessa samfélags eiga að búa við það öryggi að þeir verði hvorki fyrir kynferðislegu né kynbundinni áreitni eða ofbeldi. Ef einstaklingur innan skólans telur sig verða fyrir slíku ber skólasamfélaginu að bregðast við með ábyrgum og skipulögðum hætti.

Við líðum hvorki kynferðislega áreitni eða ofbeldi né kynbundna áreitni eða ofbeldi og höfum því sett þessar verklagsreglur. Verklagsreglurnar eru lifandi skjal sem verður endurskoðað eftir þörfum.
Einstaklingur sem verður var við kynferðislega áreitni eða kynferðislegt ofbeldi er hvattur til þess að tilkynna það til náms- og starfsráðgjafa eða skólastjórnenda eftir því sem hann/hún/hán/þau telur/telja best.

Minnt er á tilkynningaskyldu þeirra sem afskipti hafa af börnum úr Barnaverndarlögum nr. 80/2002 17. gr.

Markmið
Við líðum hvorki kynferðislega áreitni eða ofbeldi né kynbundna áreitni eða ofbeldi í skólanum í kennslu, almennu starfi eða öðrum samskiptum sem eiga sér stað í skólastarfinu eða í tengslum við starfsemi skólans.

Markmið verkslagsreglna þessara er að tryggja að úrræði sé til staðar telji einstaklingur sig hafa orðið fyrir kynferðislegu og/eða kynbundinni áreitni eða kynferðislegu og/eða kynbundnu ofbeldi.

Skilgreiningar
Með kynbundinni áreitni er átt við hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi. Áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni.

Með kynferðislegri áreitni er átt við hvers kyns kynferðislega hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni.

Með kynbundnu ofbeldi er átt við ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.  

Með kynferðislegu ofbeldi er átt við brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Leiðir
Nemendur fá fræðslu um kynbundið ofbeldi og annað ofbeldi og þeim gert ljóst hvert þeir geti leitað eftir aðstoð komi slíkt mál upp, hvort heldur sem er af hálfu annarra nemenda eða starfsfólks.
Fræðsla til nemenda um kynþroska, kynlíf og siðferði í samskiptum kynjanna verði samkvæmt markmiðum aðalnámskrár grunnskóla og skólanámskrá. Á hverju hausti er farið yfir það með starfsfólki skólans hvað getur falist í kynbundnu áreiti í samskiptum nemenda og starfsmanna. Nemendum verður einnig kynnt hvert þeir geti leitað.

Nemendur
Í framhaldi af tilkynningu um grun um brot af ofangreindu tagi fer eftirfarandi ferli í gang innan skólans:

  • Náms- og starfsráðgjafi og stjórnendur hittast og skipuleggja næstu skref.
  • Fræðslustjóri, grunnskólafulltrúi og yfirsálfræðingur Reykjanesbæjar eru upplýstir um málið.
  • Tilkynning og efni hennar eru borin undir barnaverndarnefnd.
  • Haft er samband við forráðamenn og fundur með þeim skipulagður.
  • Málið er skoðað og rætt við hlutaðeigandi.
  • Skólayfirvöld aðstoða málsaðila við að leita sér sérfræðiaðstoðar meðferðaraðila.
  • Ákveði málsaðilar að leita réttar síns munu skólastjórnendur og ráðgjafar skólans vera viðkomandi til aðstoðar.
  • Þegar könnun máls er lokið eru niðurstöður kynntar málsaðilum og eftir atvikum sendir skólinn tilkynningu til barnaverndarnefndar.
  • Eftirfylgni er höfð með málsaðilum eftir því sem þurfa þykir.
  • Þeim sem vinna að viðkvæmum málum innan skólans er skylt að gæta trúnaðar.

Ekki er aðhafst í máli nema sá sem verður fyrir áreitni eða kynferðislegu ofbeldi (og forráðamenn eftir því sem við á) sé samþykkur því. Sé hins vegar um brot á landslögum (broti sem er lýst í XXII. kafla almennra hegningarlaga) verður máli vísað til barnaverndarnefndar.

Viðbrögð
Ef aðilar máls eru í sama skóla eða eru nemendur í sama námsumhverfi (í sama bekk eða árgangi) þá ber að skoða hvort að gera þurfi ráðstafanir varðandi samskipti, samvinnu og samneyti málsaðila. Reynt skal að ná sáttum um vinnutilhögun meðan málið er í skoðun. Ekki er gert ráð fyrir að flytja til í námi einstakling sem hefur kvartað eða orðið fyrir broti, vegna kynbundinnar eða kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis, nema viðkomandi óski þess.
 
Tímarammi
Brýnt er að brugðist sé við málum sem þessar verklagsreglur fjalla um svo fljótt sem auðið er og að niðurstaða liggi fyrir eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að nemandi eða forráðamaður sendi inn formlega tilkynningu.
 
Viðurlög
Viðurlög við broti eru samkvæmt skólareglum. Gerandi verður látinn axla ábyrgð og getur verið fluttur til í annan skóla eða verið vikið úr skóla. Sé um visvísandi rangar ásakanir að ræða þarf að leita sátta þannig allir geti stundað sína vinnu eða nám í öruggu umhverfi, ein leið getur verið að skipta um skóla.
 
 
Síðast uppfært 1. des. 2022.

  • Foreldrafélag Myllubakkaskóla
  • FFGÍR
  • Reykjanesbær - Menntastefna
  • Reykjanesbær